Félag háskólakvenna hefur valið háskólakonu ársins 2022.
Fyrir valinu varð Dr. Unnur Þorsteinsdóttir, forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra veitti Unni viðurkenninguna í gær við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands
Með því að velja háskólakonu ársins líkt og gert hefur verið frá árinu 2017, vill stjórn Félags háskólakvenna vekja athygli á ólíkum störfum og afrekum félagskvenna sinna sem nú eru um 300 talsins, svo það megi verða öðrum konum hvatning og innblástur.
Við val á háskólakonu ársins var leitað til fjölmargra aðila, m.a. rektora allra háskóla hérlendis
og þau beðin að tilnefna hvaða konur stæðu fremst að þeirra mati og ættu skilið tilnefninguna Háskólakona ársins. Þá var einnig leitað til félagskvenna. Það var afar ánægjulegt að fjölmargar tilnefningar bárust um konur sem þykja hafa skarað hafa fram úr á sínu fagsviði og verið öðrum háskólakonum góðar fyrirmyndir.
Ásta Dís Óladóttir formaður félagsins sagði að ,,það hefði verið samdóma álit stjórnar Félags háskólakvenna að Unnur Þorsteinsdóttir sé háskólakona ársins 2022“.
Þetta er í sjötta sinn sem Félag háskólakvenna, stendur fyrir valinu.
Unnur er fædd árið 1958. Hún lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1984, diplómanámi í kennslufræði fyrir kennara í framhaldsskóla árið 1987 og doktorsprófi í sameindaerfðafræði frá University of British Columbia árið 1997.
Á árunum 1997-2000 var hún nýdoktor við Institut de Recherches Cliniques de Montreal í Kanada. Hún hefur starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2000. Hún var verkefnastjóri í deild krabbameinsrannsókna 2000-2003 og forstöðumaður erfðarannsókna 2003-2010. Unnur hefur verið framkvæmdastjóri rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar frá 2010 og hefur m.a. leitt rannsóknir tengdum hjarta og æðasjúkdómum, efnaskiptasjúkdómum og krabbameinum. Hún tók við starfi forseta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands 1. júlí 2022.
Samhliða starfi sínu hjá Íslenskri erfðagreiningu hefur Unnur gegnt stöðu rannsóknarprófessors við Læknadeild Háskóla Íslands. Hún hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum og nefndum, þ. á m. fagráði Rannsóknarsjóðs í heilbrigðis- og lífvísindum, Vísinda- og tækniráði Íslands, setið í stjórn Rannsóknarsjóðs RANNÍS og var formaður stjórnar Markáætlunar á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Unnur hefur setið í doktorsnefndum, verið andmælandi við doktorsvarnir og leiðbeint doktorsnemum. Þá hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og rannsóknir og fékk m.a. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag á vettvangi erfðarannsókna og vísinda árið 2017.
Árið 2022 var Unnur metin sem áhrifamesta vísindakona Evrópu og sú fimmta áhrifamesta í heiminum, samkvæmt nýjum lista sem vefurinn Research.com hefur tekið saman og byggist á greiningu á rannsóknaframlagi yfir 160 þúsund vísindakvenna. Vefurinn birti þá í fyrsta sinn lista yfir fremstu vísindakonur heims en með því vilja forsvarsmenn vefsins draga fram afrek kvenna í geira þar sem karlmenn hafa um langt skeið verið í miklum meirihluta. Markmiðið með listanum er einnig að hvetja vísindakonur áfram í störfum sínum, og ungar konur til þess að helga sig vísindum, en konur eru aðeins þriðjungur starfsfólks í vísindum.
Fram kemur á Research.com að tilvitnanir í rannsóknir sem Unnur hefur komið að eru hátt í 190 þúsund og birtingar hennar rúmlega 460 á því tímabili sem liggur til grundvallar listanum. Það skilar henni, sem fyrr segir, í fimmta sæti á lista yfir fremstu vísindakonur heims og í fyrsta sæti meðal vísindakvenna í Evrópu. Unnur var jafnframt eina íslenska vísindakonan sem komst á listann að þessu sinni.
Tilnefndar voru auk Unnar
Arna Mathisen arkitekt sem útskrifaðist með meistaragráðu í arkitektúr frá Princeton háskóla og er annar stofnenda Apríl Arkitekta. Verk þeirra hafa hlotið margvíslegar viðurkenningar og eru þau notuð til fyrirmyndar í bæklingum hins opinbera í Noregi fyrir góðar og framsýnar lausnir. Arna er tilnefnd fyrir störf sín og fyrir að hafa sett mark sitt á borgarþróun, vistvæna og sjálfbæra hugsun.
Dr. Arney Einarsdóttir dósent við Háskólann á Bifröst er tilnefnd fyrir rannsóknir á sviði mannauðsmála en Arney hefur verið afkastamikil á því sviði. Hún er m.a. einn þátttakenda í Cranet rannsókninni.
Dr. Ásta Dís Óladóttir dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands er tilnefnd fyrir rannsóknir á sviði jafnréttismála og jafnra tækifæra kynjanna til stjórnunarstarfa. Ásta Dís hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum og setið í stjórnum fjölda fyrirtækja og stofnana. Hún hefur hlotið rannsóknastyrki og viðurkenningar fyrir störf sín og eftir hana hafa komið út bók og bókakarflar hjá virtum forlögum, og greinar hér á landi og erlendis.
Dr. Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, dósent við Háskólann á Bifröst er tilnefnd fyrir uppbyggingu á nýrri námslínu um áfallastjórnun við Háskólann á Bifröst.
Dr. Bryndís Snæbjörnsdóttir prófessor og fagstjóri meistaranáms í myndlist og sýningagerð við Listaháskóla Íslands. Hún er einnig gestaprófessor við Malmö Art Academy. Bryndís notar gjarnan samspil manna og dýra í verkefnum sínum til að skoða málefni er varða sögu, menningu og umhverfið.
Dr. Brynhildur Davíðsdóttir prófessor í umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Brynhildur hefur bæði náð aðdáunarverðum árangri sem fræðikona á heimsmælikvarða og verið í forystu fyrir Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hún hefur m.a. beitt sér sérstaklega fyrir metnaðarfullu starfi fyrirtækisins að umhverfismálum.
Dr. Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix. Edda Sif hefur stýrt markvissri uppbyggingu Carbfix og fengið til liðs við sig einvala lið vísinda- og rekstrarfólks og náð fjölmörgum samningum um hagnýtingu, uppbyggingu og styrki.
Elín Jónsdóttir forseti lagadeildar Háskólans á Bifröst fyrir eflingu og endurskipulagningu laganáms við Háskólann á Bifröst.
Fríða Björk Ingvarsdóttir fráfarandi rektor Listaháskóla Íslands. Fríða Björk hefur verið rektor skólans s.l. áratug. Fyrir þann tíma hafði hún getið sér gott orð sem bókmennta- og menningarrýnir, rithöfundur, blaðamaður og þýðandi. Fríða hefur verið stjórnarformaður Gljúfrasteins – húss skáldsins, setið í ráðgjafarnefnd um heiðurslaun Alþingis, í stjórn Kjarvalsstofu í París og var stjórnarformaður Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar.
Dr. Guðrún Nordal, prófessor og forstöðukona Árnastofnunnar. Guðrún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir vísindasamfélagið, hér heima og erlendis. Þar má nefna í Vísinda- og tækniráð, formaður stjórnar Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs Vísinda- og tækniráðs. Guðrún hefur setið í stjórn og verið stjórnarformaður Nordforsk, norræna rannsóknarráðsins, og verið í stjórn European Science Foundation og í háskólaráði Fróðskaparsetursins í Færeyjum.
Dr. Halla Steinunn Stefánsdóttir, fiðluleikari, kúrator og tónskáld. Halla Steinunn hefur skipað sér í fremstu röð innan snemm- og samtímatónlistar hérlendis. Hún hefur verið listrænn stjórnandi kammerhópsins Nordic Affect frá stofnun hans árið 2005. Nordic Affect hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin ásamt tilnefningu til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.
Íris Baldursdóttir, rafmagns og tölvunarverkfræðingur, framkvæmdastjóri og meðstofnandi, Snerpu Power. Snerpa Power var stofnað í þeim tilgangi að virkja raforkunotendur á Íslandi til þátttöku á raforkumarkaði og bæta þannig auðlindanýtingu og skapa aukið svigrúm fyrir orkuskiptin. Íris hefur unnið hjá Landsneti í 15 ár, þar áður hjá alþjóðlegum rafbúnaðarframleiðanda, ABB, og nú starfar hún hjá Samtökum raforkuflutningsfyrirtækja Evrópu í Brussel.
Dr. Isabel C. Barrio prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún varði doktorsverkefni sitt í vistfræði árið 2010. Árið 2013 setti hún á fót alþjóðlega rannsóknatengslanetið Herbivory Network sem sameinar vísindamenn á Norðurslóðum. Tengslanetið hefur nú yfir 200 meðlimi frá meira en 20 löndum og er hýst hjá Landbúnaðarháskóla Íslands undir stjórn Isabel. Það var viðurkennt sem UArctic Thematic Network árið 2020.
Katrín María Káradóttir, dósent í fatahönnun við Listaháskóla Íslands. Katrín er frumkvöðull á sviði sjálfbærrar fatahönnunar og slow fashion. Hún hefur víðtæka reynslu á sviðum tilraunakenndrar sníðagerðar, hönnunar, listrænnar ráðgjafar og samstarfs, óhefðbundnum textíl og formum. Og lauk nýlega fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni um nýtingu fiskroðs í margvíslegar afurðir.
Dr. Oddný Mjöll Arnardóttir, rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands og dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Í rannsóknum sínum hefur hún einkum fengist við mannréttindi, bæði frá sjónarhorni stjórnskipunarréttar, þjóðaréttar og Evrópuréttar. Þá hafa viðfangsefni hennar öðrum þræði verið réttarheimspekileg auk þess sem hún hefur lagt áherslu á aðferðir dómstóla við að komast að niðurstöðum og samspil ólíkra réttarkerfa. Þing Evrópuráðsins kaus í janúar 2023 Oddnýju Mjöll dómara við Mannréttindadómstól Evrópu. Oddný Mjöll er fyrsta konan sem er skipuð dómari við Mannréttindadómstól Evrópu af hálfu Íslands, en skipunartíminn er til níu ára.
Dr. Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún hefur komið afar víða við á sviði háskólanáms og rannsókna. Hún tók við sem rektor við LbhÍ árið 2019. Þar er hún í forsvari fyrir afar öflugan háskóla á sviði umhverfismála og landnýtingar. Á fyrstu tveimur árum hennar sem rektor tvöfaldaðist nemendafjöldi við skólann og hafa aldrei fleiri nemendur verið við doktorsnám við skólann.
Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík. Hún hefur um árabil verið einn fremsti vísindamaður Háskólans í Reykjavík, verið formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs og hefur dæmt mál í Hæstarétti, héraðsdómi og í Mannréttindadómstóli Evrópu. Þá er Ragnhildur heiðursdoktor frá Háskólanum í Bergen.
Dr. Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Sif hefur verið leiðandi í alþjóðlegu samstarfi, hefur hlotið fjölda rannsóknarstyrkja og viðurkenninga og eftir hana hafa komið út bækur hjá virtustu bókaforlögum heims á sviði miðaldabókmennta, auk fjölda tímaritsgreina á alþjóðlegum og innlendum vettvangi.
Dr. Sigurveig H. Sigurðardóttir prófessor í félagsvísindadeild Háskóla Íslands, tilnefnd fyrir frumkvöðlastarf í þágu aldraðra. Sigurveig kom meðal annars á fót Múlabæ fyrstu dagþjálfun fyrir aldraða sem einmitt á 40 ára afmæli á þessu ári. Hún hefur einnig verið framkvæmdastjóri Rauða krossins, starfað sem félagsráðgjafi á LSH og er frumkvöðull ásamt öðrum að stofnun á námi fyrir félagsráðgjafa í HÍ.