Heimsókn til Íslenskrar Erfðagreiningar
Kæru félagskonur
Dr. Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu og háskólakona ársins 2022 tekur á móti félagskonum þann 17. mars nk, kl 17:00 í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8.
Dr. Unnur Þorsteinsdóttir, Háskólakona ársins 2022.
Unnur mun flytja erindi um rannsóknarmódel Íslenskrar erfðagreiningar, í kjölfarið verða umræður og rannsóknaraðstaða ÍE verður skoðuð.
Unnur lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1984, diplómanámi í kennslufræði fyrir kennara í framhaldsskóla árið 1987 og doktorsprófi í sameindaerfðafræði frá University of British Columbia árið 1997. Á árunum 1997-2000 var hún nýdoktor við Institut de Recherches Cliniques de Montreal í Kanada. Hún hefur starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2000. Hún var verkefnastjóri í deild krabbameinsrannsókna 2000-2003 og forstöðumaður erfðarannsókna 2003-2010. Unnur hefur verið framkvæmdastjóri rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar frá 2010 og hefur m.a. leitt rannsóknir tengdum hjarta og æðasjúkdómum, efnaskiptasjúkdómum og krabbameinum. Unnur hefur samhliða starfi sínu hjá Íslenskri erfðagreiningu gegnt stöðu rannsóknarprófessors við Læknadeild Háskóla Íslands auk þess að sitja í fjölmörgum stjórnum og nefndum. Þá hefur Unnur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og rannsóknir og fékk m.a. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag á vettvangi erfðarannsókna og vísinda árið 2017.
Árið 2022 var Unnur metin sem áhrifamesta vísindakona Evrópu og sú fimmta áhrifamesta í heiminum.
Fjölmennum á þennan merka viðburð - vinsamlegast skráið þátttöku á netfangið felaghaskolakvenna@gmail.com