Jólafundur Félags háskólakvenna
Kæru háskólakonur
Jólafundur Félags háskólakvenna verður haldinn á Hótel Holti, fimmtudaginn 5. desember frá kl 18:00-20:00
Að venju munum við fá góða gesti til okkar sem og njóta góðra veitinga í fallegu umhverfi. Jólasnittur og tilheyrandi verða í boði á sanngjörnu verði.
Gestir jólafundarins í ár verða rithöfundarnir Eva Björg Ægisdóttir og Gerður Kristný Guðjónsdóttir og munu þær lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum.
Eva Björg kom fyrst fram á sjónarsvið íslenskra lesenda árið 2018 þegar hún sigraði í samkeppninni Svartfuglinn. Bækur Evu hafa hlotið margvísleg verðlaun innanlands og utan. Marrið í stiganum vann til hinna virtu glæpasagnaverðlauna Breta, CWA Dagger og fékk einnig Thrillzone Award í Hollandi fyrir bestu fyrstu glæpasöguna. Heim fyrir myrkur hlaut Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann árið 2023. Bækur Evu Bjargar hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál.
Gerður Kristný skrifar jöfnum höndum verk fyrir börn og fullorðna og hefur sent frá sér skáldsögur, ljóð og leikrit auk annars efnis. Gerður Kristný hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar.
Ljóð og smásögur Gerðar Kristnýjar hafa birst í kennslubókum fyrir grunn- og framhaldsskóla, auk þess sem ljóð hennar og smásögur eru í ýmsum safnritum og tímaritum, íslenskum sem erlendum. Bækur Gerðar Kristnýjar hafa komið út víða um heim.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flestar í jólastemmningu á Holtinu. Vinsamlegast skráið þátttöku með því að svara þessum tölvupósti.
Staður: Hótel Holt, Bergstaðastræti 37.
Stund: 5. desember kl. 18:00-20:00
Skráning:felaghaskolakvenna@gmail.com