Stjórn Félags háskólakvenna heiðrar árlega eina háskólakonu fyrir framlag sitt til samfélagsins. Að þessu sinni var leitað til rektora allra háskóla á Íslandi og þeir beðnir um að tilnefna hvaða konur stæðu fremst að þeirra mati og ættu skilið tilnefninguna Háskólakona ársins. Það var afar ánægjulegt að fjölmargar tilnefningar bárust um konur sem skarað hafa fram úr á sínu fagsviði og verið öðrum háskólakonum góðar fyrirmyndir.
Fyrir valinu í ár varð Erna Sif Arnardóttir, lektor við verkfræðideild og forstöðumaður Svefnseturs við Háskólann í Reykjavík.
Dr. Erna Sif Arnardóttir er fædd árið 1981. Hún útskrifaðist með B.S. gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands árið 2005, meistaragráðu í líf- og læknavísindum árið 2007 og varði doktorsverkefni sitt í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands árið 2013 í samstarfi við University of Pennsylvania í Bandaríkjunum.
Erna Sif hefur verið leiðandi vísindamaður á sviði svefnrannsókna hér á landi, m.a. sem nýdoktor og aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands, sem forstöðunáttúrufræðingur við Svefndeild við Landspítala, sem klínískur ráðgjafi hjá fyrirtækinu Nox Medical og sem rannsóknasérfræðingur við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Árið 2020 setti hún á fót þverfaglegt Svefnrannsóknasetur við Háskólann í Reykjavík sem hún veitir forstöðu. Erna Sif leiðir jafnframt rannsókna- og þróunarverkefnið Svefnbyltingin en verkefnið hlaut tveggja og hálfs milljarða króna styrk frá rammaáætlun Evrópusambandsins á árinu 2020, en það er einn hæsti styrkur sem veittur hefur verið til vísindarannsókna hérlendis.
Þetta er ekki fyrsta viðurkenningin sem Erna Sif veitir viðtöku, hún hefur áður hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín á sviði svefnrannsókna. Hún var valin ungur vísindamaður Landspítala árið 2009, hlaut hvatningarstyrk úr Vísindasjóði Landspítala árið 2011 og fékk Hvatningarverðlaun Rannís árið 2021. Auk þess hefur hún fengið fjölda viðurkenninga fyrir framlag sitt á alþjóðlegum vettvangi þar sem hún m.a. hefur ítrekað haldið boðsfyrirlestra á alþjóðlegum ráðstefnum.
Framlag Ernu Sifjar til vísindanna er óumdeilt en niðurstöður rannsókna hennar hafa birst í ýmsum virtustu tímaritum heims á viðkomandi fræðasviðum og þúsundir fræðimanna hafa vitnað í greinar hennar og rannsóknir.
Stjórn Félags háskólakvenna óskar Ernu Sif innilega til hamingju og þakkar öllum þeim sem komu að því að gera þennan dag ánægjulegan og eftirminnilegan.