Háskólakona ársins
Háskólakona ársins var fyrst valin árið 2017. Við valið er horft til þess til viðbótar við að viðurkenningarhafi hafi háskólagráðu að framlag Háskólakonu ársins til samfélagsins þyki skara fram úr, að hún sé brautryðjandi á sínu fagsviði og að hún sé góð fyrirmynd fyrir aðrar háskólakonur. Tilgangur þess að velja Háskólakonu ársins er að vekja athygli á fjölbreyttum starfsvettvangi háskólakvenna, beina kastljósinu að störfum þeirra og rannsóknum og undirstrika framlag þeirra til samfélagsins. Auk þess sem félagið vill fagna framgangi þeirra, áræðni og sérstökum árangri.
Háskólakona ársins 2017 - dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og forstöðukona Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum.
Háskólakona ársins 2018 - dr. Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld. Anna lauk BA gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og meistara- og doktorsgráðu í tónsmíðum frá University of California í San Diego. Hún gegnir um þessar mundir stöðu staðartónskálds við Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Háskólakona ársins 2019 - dr. Margrét Vilborg Bjarnadóttir, aðstoðarprófessor í aðgerðagreiningu og tölfræði við Robert H. Smith viðskiptaháskólann í Maryland í Bandaríkjunum og stofnandi sprotafyrirtækisins PayAnalytics.
Háskólakona ársins 2020 - Hildur Guðnadóttir, tónskáld. Hildur er með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands og framhaldsnám frá Universität der Künste í Berlín. Hún hefur náð framúrskarandi árangri á sínu sviði og hlotið fjölmargar viðurkenningar og verðlaun fyrir tónverk sín.
Háskólakona ársins 2021 - dr. Erna Sif Arnardóttir, dósent. Erna Sif varði doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum frá HÍ árið 2013 í samstarfi við Háskólann í Pennsylvaníu. Erna Sif er leiðandi vísindamaður á sviði svefnrannsókna á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Erna er dósent við verkfræðideild HR og stofnaði þverfaglegt svefnsetur við skólann árið 2020. Erna Sif leiðir rannsóknar- og þróunarverkefnið Svefnbyltinguna sem hlaut tveggja og hálfs milljarðs króna styrk frá Evrópusambandinu árið 2020 og er það einn hæsti styrkur sem veittur hefur verið til vísindarannsókna á Íslandi.
Háskólakona ársins 2022 - Dr. Unnur Þorsteinsdóttir, forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Unnur hefur verið framkvæmdastjóri rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar frá 2010. Hún tók við starfi forseta heilbrigðisvísindasviðs HÍ árið 2022. Unnur hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnun og nefndum og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og rannsóknir m.a. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu. Árið 2022 var Unnur metin áhrifamesta vísindakonan í Evrópu og sú fimmta áhrifamesta heiminum samkvæmt Research.com. Tilvitnanir í rannsóknir sem Unnur hefur komið að eru hátt í 190 þúsund og birtingar hennar rúmlega 460.
Háskólakona ársins 2023 - Dr. Kristín Jónsdóttir, eldfjalla- og jarðskjálftafræðingur, sem hefur staðið í framlínunni vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga síðastliðin misseri. Kristín starfar sem hópstjóri í náttúruváreftirliti hjá Veðurstofu Íslands. Hún er í vísindaráði Almannavarna og hefur starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands. Kristín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, námi í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og er með doktorsgráðu í jarðskjálftafræði frá Uppsala-háskóla. Hún hefur rannsakað Bárðarbungu og aðrar megineldstöðvar á Íslandi og hefur starfað á Veðurstofu Íslands frá árinu 2013. Í janúar árið 2021 hlaut Kristín 110 milljóna króna styrk frá Rannís til að leiða öndvegisverkefni sem mun standa yfir í þrjú ár og rannsaka jarðskjálftaóróa.