Aðalfundur Félags háskólakvenna 5. júní 2024

Guðmunda Smáradóttir, formaður kynnti skýrslu stjórnar.

Starfsárið var kraftmikið og hófst með hádegisfundi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands þann 7. september þar sem Lára Sóley framkvæmdastjóri Sinfó sagði frá fjölbreyttu hljómsveitarstarfi og verkefnunum framundan. Félagskonur fengu að líta inn á æfingu með hljómsveitinni.

Þann 24. október á sjálfan Kvennafrídaginn tók Dr. Guðfinna Sesselja Bjarnadóttir á móti félagskonum í Háskólanum í Reykjavík

Guðfinna sagði frá Magnavita náminu en markmið þess er að stuðla að fjölgun spennandi og heilbrigðra æviára með því að auka hreysti, virkni og félagsleg tengsl.

Jólafundurinn var haldinn á Hótel Holti þann 23. nóvember. Gestir fundarins voru Sigríður Hagalín, rithöfundur og Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor. Ljúfar veitingar komu úr eldhúsi Hótel Holts og jazztónar settu punktinn yfir i-ið

Félag háskólakvenna í samstarfi við Endurmenntun HÍ stóð að velheppnuðum fundi þann 2. febrúar undir yfirskriftinni "U-beygjan, þegar hjartað ræður för".

Þrjár konur, Árelía E. Guðmundsdóttir, Eva Skarpaas og Eygló Harðardóttir sögðu magnaðar "U-beygju sögur sínar". Fundurinn vakti athygli fjölmiðla og var mjög vel sóttur.

Stjórn Félags háskólakvenna var einróma í vali á háskólakonu ársins sem tilkynnt var þann 21.mars á Hótel Holti. Dr. Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur og deildarstjóri jarðskorpu, jarðskjálfta- og eldfjallarannsókna hjá Veðurstofu Íslands var valin háskólakona ársins. Rannsóknir Kristínar fara þvert á ýmsar greinar jarðvísinda í þeim tilgangi að skilja hegðun eldfjalla og jarðskorpu á Íslandi. Valið á háskólakonu ársins vakti athygli fjölmiðla og var samkoman vel sótt.

Marta María Arn­ars­dótt­ir, skóla­meist­ari Hús­stjórn­ar­skól­ans tók á móti félagskonum í pönnukökukaffi þann 23. maí.

Skólameistarinn fór yfir sögu og starfsemi skólans, nýjungar í starfseminni og framtíðarsýn fyrir Hússtjórnarskólann.

Þá kenndi skólameistarinn félagskonum hvernig bera eigi sig að við pönnukökurnar – ekki alveg einfalt! Eftir pönnskukaffið voru húsakynni Húsó skoðuð.

Stjórn FHK 2024-2025.

Ásgerður Halldórsdóttir, Björg Jónsdóttir, Guðmunda Smáradóttir og Vilborg Einarsdóttir gáfu áfram kost á sér til stjórnarsetu fyrir komandi starfsár og þá bauð Sigríður Hrund sig einnig fram til stjórnar en hún var varamaður 2023-2024. Stjórn var sjálfkjörin og í varastjórn voru kjörnar Guðrún Gunnarsdóttir og Vala Georgsdóttir. Félagið þakkar Vöku Óttarsdóttur og Ruth Elvarsdóttur fyrir gott samstarf en þær ganga nú úr stjórn og varastjórn.

Stjórn þakkar fyrir líflegt og skemmtilegt starfsár og hlakkar til komandi starfsárs.