Guðrún Pétursdóttir fær heiðursviðurkenningu Félags háskólakvenna

Félag háskólakvenna veitti Guðrúnu Pétursdóttur heiðursviðurkenningu félagsins fyrir framlag hennar til rannsókna og vísinda og fyrir að vera einstök fyrirmynd og brautryðjandi. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, bauð félagskonum til móttöku í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu og fór afhending viðurkenningarinnar fram þar. Guðrún sem er dósent í fósturfræði og lífeðlisfræði við Hjúkrunarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands hefur verið framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða frá 2005. Guðrún er með doktorsgráðu í taugalíffræði frá háskólanum í Osló, MA-gráðu í lífeðlisfræði frá Oxford-háskóla og BA-gráðu í sálarfræði frá Háskóla Íslands. Guðrún tók við viðurkenningunni úr hendi mennta- og menningarmálaráðherra. Fjölmargar félagskonur mættu í boð ráðherra, þeirra á meðal voru Eliza Reid, forsetafrú, og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti. Á myndinni eru, talið frá vinstri, Elísabet Sveinsdóttir, Eliza Reid, Vigdís Finnbogadóttir, Guðrún Pétursdóttir, Hanna Lára Helgadóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Helga Guðrún Johnson og Margrét Kristín Sigurðardóttir.

Á Facebook FHK er hægt að skoða fleiri myndir.

Viðurkenning FHK.jpg
Guðrún og Lilja.jpg
_S4I8148.jpg
_S4I8162-2.jpg