Félag háskólakvenna hefur valið Háskólakonu ársins 2019. Fyrir valinu varð dr. Margrét Vilborg Bjarnadóttir, aðstoðarprófessor í aðgerðagreiningu og tölfræði við Robert H. Smith viðskiptaháskólann í Maryland í Bandaríkjunum og stofnandi sprotafyrirtækisins PayAnalytics.
Margrét Vilborg lauk BS gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 2001 og hlaut þá hæstu einkunn sem skráð hafði verið. Hún lauk doktorsgráðu frá MIT í Cambridge 2008. Rannsóknarritgerð hennar ber heitið Data-Driven Approach to Health Care – Applications Using Claims Data. Margrét Vilborg hefur verið meðhöfundur í fjölmörgum rannsóknargreinum sem birtar hafa verið í viðurkenndum ritrýndum tímaritum. Hún hefur flutt erindi víða um heim á ráðstefnum og fundum svo tugum skiptir. Hún hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir kennslu, meðal annars var hún valin besti kennarinn í MBA valgreinum árið 2018 og hlaut virt kennsluverðlaun Robert H. Smith viðskiptaháskólans árið 2018-19. Þá hefur hún verið leiðbeinandi og ráðgjafi fjölmargra háskólastúdenta. En Margrét Vilborg hefur ekki eingöngu fengist við kennslu og fræðiskrif því hún er jafnframt stofnandi sprotafyrirtækisins PayAnalytics þar sem þróuð hefur verið hugbúnaðarlausn sem gerir stofnunum og fyrirtækjum kleift að framkvæma launagreiningar, skoða áhrif launaákvarðana og ráðast á launabil kynjanna með aðgerðaráætlun og kostnaðargreiningu. Hugbúnaðurinn gerir einnig mögulegt að halda launabilinu lokuðu með launatillögum fyrir nýráðningar og þá sem færast til í starfi. Í þessu felst heilmikil nýsköpun hjá Margréti Vilborgu en að baki lausninni er stuðst við flókin tölfræði- og stærðfræðilíkön, en lausnin sjálf setur fram gögnin á aðgengilegan og auðskiljanlegan máta. Ekki er nóg með að hugbúnaðurinn greini launamun kynjanna heldur kemur hann einnig með lausnir til úrbóta, auk þess að reikna kostnaðinn við aðgerðir til að eyða launabilinu þannig að allar launaákvarðanir geti orðið markvissari. Margrét Vilborg hlaut fyrir skömmu aðalverðlaun alþjóðlegs þings heimssamtaka frumkvöðla- og uppfinningakvenna GWIIN og Pay Analytics hlaut fyrstu verðlaun í keppni fyrir nýsköpunarfyrirtæki í Bandaríkjunum sem Wharton viðskiptaháskólinn í Pennsylvaníu stendur fyrir.
Við valið er horft til þess til viðbótar við að viðurkenningarhafi hafi háskólagráðu að framlag Háskólakonu ársins til samfélagsins þyki skara fram úr, að hún sé brautryðjandi á sínu fagsviði og að hún sé góð fyrirmynd fyrir aðrar háskólakonur. Það voru fjölmargar háskólakonur á forvalslista og var það samdóma álit stjórnar Félags háskólakvenna að Margrét Vilborg uppfylli vel öll þau skilyrði sem sett eru fyrir valinu og þykir hafa sýnt í verki hverju það getur skilað að hafa góða menntun í farteskinu. Tilgangur þess að velja Háskólakonu ársins er að vekja athygli á fjölbreyttum starfsvettvangi háskólakvenna, beina kastljósinu að störfum þeirra og rannsóknum og undirstrika framlag þeirra til samfélagsins. Auk þess sem félagið vill fagna framgangi þeirra, áræðni og sérstökum árangri.
Félag háskólakvenna var stofnað 1928. Í fyrsta skipti í sögu félagsins var efnt til vals á Háskólakonu ársins árið 2017. Þá varð fyrir valinu dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, en Unnur lauk BA gráðu í sálfræði við Háskóla Íslands og doktorsgráðu í klínískri faraldsfræði við Karolinska Institutet í Svíþjóð. Unnur Anna hefur meðal annars unnið að vinna að einni stærstu rannsókn sem gerð hefur verið á samspili erfða og heilsufarslegra afleiðinga alvarlegra sálrænna áfalla. Í annað sinn varð fyrir valinu dr. Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld, en hún lauk BA gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og meistara- og doktorsgráðu í tónsmíðum frá University of California í San Diego og gegnir stöðu staðartónskálds við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Verk Önnu sem hafa verið flutt víðsvegar um heiminn hafa hlotið fjölda viðurkenninga og verðlaun, meðal annars Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs, verðlaun frá New York Filharmoníunni og Lincoln Center.
Á myndinni eru talið frá vinstri, Elísabet Sveinsdóttir, Halldóra Traustadóttir, formaður félagsins, Margrét Vilborg Bjarnadóttir, Helga Guðrún Johnson, Hanna Lára Helgadóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir.