Stjórn endurkjörin á aðalfundi

Stjórn Félags háskólakvenna var endurkjörin á aðalfundi félagsins sem fram fór þriðjudaginn 28. maí. Halldóra Traustadóttir, var kosin formaður félagsins, Helga Guðrún Johnson, varaformaður, Hanna Lára Helgadóttir, gjaldkeri, Margrét Kristín Sigurðardóttir, ritari, og Elísabet Sveinsdóttir, meðstjórnandi.

Á aðalfundinum fór fráfarandi formaður, Margrét Kristín Sigurðardóttir, yfir skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2018-2019. Í máli hennar kom fram að starfsárið hafi verið viðburðarríkt en á árinu fagnaði félagið 90 ára afmæli. Á árinu voru haldnir 8 stjórnarfundir. Í október var efnt til viðburðar á Hótel Holti þar sem Háskólakona ársins var kynnt sem að þessu sinni var valin dr. Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld. Stjórn stóð fyrir veglegri afmælishátíð í hátíðarsal Háskóla Íslands 14. nóvember þar sem flutt voru ávörp og erindi, heimildarmynd um FHK var sýnd, þrjár háskólakonur heiðraðar og veittur rannsóknarstyrkur. Þá var tónlistaratriði í lok dagskrár og boðið upp á léttar veitingar. Fjölmennt var á hátíðinni. Félagið veitti í tilefni 90 ára afmælisins 500 þúsund króna rannsóknarstyrk sem auglýstur var. Um 20 umsóknir bárust og hlaut Ingunn Gunnarsdóttir, 28 ára doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands styrkinn. Á afmælishátíðinni voru þrjár félagskonur sem hlutu heiðursviðurkenningar félagsins; Guðrún Erlendsdóttir, séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir.

Á árinu stóð stjórn fyrir því að gera nýtt myndmerki fyrir félagið þar sem gamla myndmerkið var fært í nútímabúning. Þá var ný vefsíða félagsins opnuð í nóvember í tilefni 90 ára afmælisins. Það var Helga Guðrún Johnson sem sá um framkvæmd heimildarmyndarinnar sem sýnd var á afmælishátíðinni.

Stjórn sendi félagskonum hátíðarkveðju í desember.

Í janúar fengu félagskonur boð í Listaháskóla Íslands þar sem Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor, tók á móti félagskonum. Góð mæting var í heimsóknina. Þá fóru fjölmargar félagskonur í heimsókn til umboðsmanns barna, Salvöru Nordal, í húsakynni embættisins í Kringlunni 1. Heimsóknin fór fram í mars.

Á árinu var nokkrum sinnum umfjöllun um Félag háskólakvenna í fjölmiðlum, meðal annars í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, Viðskiptablaðinu, mbl.is, Vísir og RÚV.

Félag háskólakvenna á aðild að Mæðrastyrksnefnd og er Guðrún Gunnarsdóttir fulltrúi FHK í stjórn nefndarinnar. Auður Reynisdóttir og Edda Björt eru fulltrúar FHK með vinnuframlag.

Félag háskólakvenna er einnig aðildi að Bandalagi kvenna í Reykjavík og mættu Hanna Lára Helgadóttir og Helga Guðrún Johnson á ársfund bandalagsins.

Félag háskólakvenna á í erlendu samstarfi við Graduated Women International, GWI, sem fagnar 100 ára afmæli á þessu ári. Hanna Lára Helgadóttir, átti fund með ísraelskri konu sem er varaformaður systurfélags FHK í Ísrael en þær kynntust á ráðstefnunni sem GWI hélt í Graz í Austurríki.

Skýrsla stjórnar 2018-2019.

Á myndinni eru talið frá vinstri, Elísabet Sveinsdóttir, Helga Guðrún Johnson, Hanna Lára Helgadóttir, Halldóra Traustadóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir.

Aðalfundur 28 05 2019 (1).jpg
Aðalfundur 28 05 2019 (3).JPG