Heiðursviðurkenningar og rannsóknarstyrkur

Félag háskólakvenna, FHK, var stofnað árið 1928 og fagnaði tímamótunum með 90 ára afmælishátíð í Hátíðarsal Háskóla Íslands 14. nóvember síðastliðinn. Á afmælishátíðinni voru þrjár konur heiðraðar fyrir störf sín, ýmist í þágu félagsins eða fyrir að vera brautryðjendur á sínu sviði og vera öðrum konum fyrirmyndir. Konurnar þrjár sem hlutu heiðursviðurkenningu Félags háskólakvenna eru Guðrún Erlendsdóttir, sem var fyrst íslenskra kvenna til að gegna embætti hæstaréttardómara, séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir, sem fyrst íslenskra kvenna tók prestvígslu, og Margrét Kristín Sigurðardóttir, viðskiptafræðingur og fyrrum stjórnarkona í Félagi háskólakvenna, sem árum saman vann ötult og óeigingjarnt starf í þágu Mæðrastyrksnefndar.

Í tilefni afmælisins veitti Félag háskólakvenna 500 þúsund króna rannsóknarstyrk sem fór til Ingunnar Gunnarsdóttur, 28 ára doktorsnema í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands með sérhæfingu í sjálfbærri orkuþróun og sjálfbærnivísum. Meginmarkmiðið rannsóknar Ingunnar er að þróa sjálfbærnivísa fyrir orkukerfi sem felur m.a. í sér þróun aðferðafræði við val á sjálfbærnivísum ásamt greiningu á ákvarðanatöku og stefnumótun tengd orkumálum á Íslandi.

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Halldóra Traustadóttir, Elísabet Sveinsdóttir, Auður Eir Vilhjálmsdóttir, Ingunn Gunnarsdóttir, Guðrún Erlendsdóttir, Margrét Kristín Sigurðardóttir, Margrét Kristín Sigurðardóttir og Hanna Lára Helgadóttir.

Félag háskólakvenna - heiðursviðurkenningar og rannsóknarstyrkur 2018.jpg